Lífið

Enn til peningar fyrir íslenska tónlistarmenn

Mugison hristir spaðann á Ólafi Ólafssyni þegar hann fékk úthlutað úr sjóði Kraums í fyrra.
Mugison hristir spaðann á Ólafi Ólafssyni þegar hann fékk úthlutað úr sjóði Kraums í fyrra.
Íslenskt tónlistarlíf, poppið og rokkið ekki síður en annað, hefur á undanförnum árum verið að miklu leyti styrkt af stórfyrirtækjum og auðjöfrum. Nú, þegar heldur betur kreppir að, er spurning hvernig spilast úr. Dr. Gunni tékkaði á stöðunni og komst að því að staðan er bara fín.

Að undanförnu hefur styr staðið um auðmanninn Ólaf Ólafsson, kenndan við Samskip. Hann er sagður hafa óhreint mjöl í pokahorninu og stór orð eins og „landráð“ heyrast um viðskipti hans. Einn af þeim brauðmolum sem hrotið hafa af milljarðaborði Ólafs er velgerðasjóðurinn Aurora, sem hann stofnaði með eiginkonu sinni. Styrktarsjóðurinn Kraumur er á vegum Auroru og hefur fimmtíu milljónir til skiptanna. Fyrstu 20 millunum var úthlutað á síðasta ári. Þá fékk Mugison mest, fjórar milljónir til að stunda tónleikahald og kynna sig á erlendum vettvangi. Píanistinn Víkingur Heiðar Ólafsson fékk 1,5 milljón og Amiina 1,2 milljónir. Þá fengu sex aðilar hálfa milljón hver, hljómsveitirnar Celestine, Dikta, FM Belfast og Skakka­manage, og tónlistarkonurnar Elfa Rún Kristinsdóttir og Ólöf Arnalds. Þá hefur Kraumur styrkt fjölda annarra verkefna, meðal annars veitti sjóðurinn fjármunum í að styrkja hljómsveitir til tónleikahalds á landsbyggðinni. Enn kraumar vel„Við erum komin inn í annað starfsár og höldum sjó og gott betur,“ segir Eldar Ástþórsson, framkvæmdastjóri Kraums. Hann segir rekstrargrundvöll Kraums tryggðan næstu tvö árin, fimmtán milljónum verði veitt úr sjóðnum á þessu ári og fimmtán til viðbótar árið 2010. „Við erum að fara yfir umsóknir og skipuleggja árið. Ég á von á að við kynnum starfsemina á næstu vikum og bæði stjórnin og fagráðið eru virkilega ánægð að geta haldið áfram með jafn góðan hlut og Kraumur er.“ Ellefta Airwaves á þurruEngan bilbug er að finna á Þorsteini Stephensen og félögum hans hjá Airwaves. Ellefta hátíðin verður haldin í október. „Við erum nú þegar farin að fá fyrirspurnir frá böndum að utan,“ segir Steini. „Það eru náttúrulega tíu mánuðir í þetta og við þurfum að sjá hvernig gengið þróast. Ég held samt að við getum farið að tilkynna um fyrstu böndin um mánaðamótin febrúar/mars. Það verða líklega minni nöfn en oft áður, sem er allt í lagi. Reynslan er sú að minni bönd vekja oft meiri athygli til langs tíma litið en stærri bönd eins og Kaiser Chiefs eða hvað þetta heitir. Ég held þetta verði flott hátíð með flottu lænöppi.“

Eitt ár er eftir af samningi hátíðarinnar við Reykjavíkurborg og Icelandair svo reksturinn er tryggður, að minnsta kosti fyrir eina hátíð í viðbót. „Það eru fundir fyrirhugaðir til að skoða framhaldið. Það er náttúrulega nauðsynlegt að hægt sé að sjá lengra inn í framtíðina en bara eitt ár,“ segir Þorsteinn.

Reykjavík Loftbrú var stofnað árið 2003 af borginni og Icelandair. Sjóðnum er ætlað að styðja tónlistarfólk við að hasla sér völl erlendis og felst styrkurinn í að borga undir listamenn í flug til áfangastaða Icelandair. Listamennirnir borga sjálfir skatta og gjöld af miðunum. Stjórnarfundur verður hjá Loftbrúnni á morgun og er ekki búist við miklum breytingum á fyrirkomulagi styrksins.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.