Innlent

Steingrímur: Varð fyrir vonbrigðum með aðgerðarleysi

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, sem kallaði til fundar í utanríkismálanefnd í dag til þess að ræða ástandið á Gaza segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með félaga sína í nefndinni yfir því að ekki skuli hafa náðst samkomulag um ályktun vegna málsins. Nefndin ákvað að vinna að tillögu sem lögð verði fyrir Alþingi þegar þing kemur saman að nýju í lok janúar.

„Því miður var ekki stuðningur við það að láta eitthvað frá sér fara núna sem eru vonbrigði," segir Steingrímur í samtali við Vísi. „Ég hefði viljað að utanríkismálanefnd sendi frá sér skýr skilaboð í þessu máli eins og ríkisstjórnin ætti að gera. Vissulega var yfirlýsing utanríkisráðherra í gær allra góðra gjalda verð en það virðist sem hún tali ekki fyrir hönd allrar ríkisstjórnarinnar og tekst að vera ósammála um þetta eins og annað þessa dagana."

Steingrímur bendir á hörmungarnar á Gaza séu í gangi í dag og að margt geti breyst áður en þing kemur saman að nýju. Því skipti máli að bregðast hratt við. „Ég var ekki að fara fram á annað en að talað yrði í nafni nefndarinnar og að hún mótaði skýra afstöðu fyrir sitt leyti," segir Steingrímur.

Að hans mati er framferði Ísraels algjörlega óverjanlegt og óásættanlegt. „Þarna fer fram hernaðarofbeldi gegn varnarlausu innilokuðu fólki með stórfelldu mannfalli óbreyttra borgara. Framferði sem aldrei getur verið réttlætanlegt og alþjóðasamfélagið verður að taka skýrari afstöðu en það hefur gert hingað til."

Steingrímur segir að allir kostir verði að vera uppi á borðum. „Viðskiptalegar og pólitískar refsiaðgerðir koma til greina auk slita á stjórnmálasamstarfi ef ekki verður fallist á vopnahlé. Það verður að koma fram af miklu meiri ákveðni gegn ísraelskum stjórnvöldum ef það á að hafa einhver áhrif. Þó að við veltum ekki þungu hlassi þá getum við þó talað fyrir okkur sjálf og látið koma skýrt fram hvernig okkur misbjóði þetta. Fyrir því var ekki meirihluti í nefndinni þannig að ég verð að sætta mig við það," segir Steingrímur að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×