Innlent

Framsóknarmenn vilja aðildarviðræður

Siv Friðleifsdóttir, oddviti framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi.
Siv Friðleifsdóttir, oddviti framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi. Mynd/GVA
Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segir stefnu flokksins í Evrópumálum skýra. Hún kveði á um aðildarviðræður um hugsanlega inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Hún segir þó ljóst að innan Framsóknarflokksins sé einnig andstæða við slíkar viðræður. Siv var gestur Sigurjóns M. Egilssonar í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Auk Sivjar hefur Guðmundur Steingrímsson lýst yfir stuðningi við tillögu stjórnarmeirihlutans um aðildarviðræður. Það mun Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, ekki gera. Óljóst er hvernig aðrir þingmenn munu greiða atkvæði en talið er líklegt að þeir muni fylgja formanninum. Varaformaðurinn, Birkir Jón Jónsson, hefur þó talað jákvætt um aðildarviðræður.

„Þegar maður les okkar flokkssamþykkt er alveg ljóst að við viljum aðildarviðræður," segir Siv og bætir við að framsóknarmenn hafi breytt stefnu sinni í Evrópumálum með afgerandi hætti á síðasta flokksþingi.

Siv telur að umfjöllun Alþingis um tillögu stjórnarmeirihlutans um aðildarviðræður hafi verið góð. Hún segir að í tillögu meirihlutans sé búið að taka til þeirra álitamála sem framsóknarmenn hafi sett fyrirvara við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×