Lífið

Páll Óskar á pening fyrir næstu plötu

Páll Óskar og Monika
Páll Óskar og Monika

„Ég get ekkert kvartað. Eina sem ég get kvartað undan er gengið, sem er eitthvað sem allir finna fyrir," segir Páll Óskar Hjálmtýsson. Hann fær á sunnudaginn afhenta platínuplötu fyrir að hafa selt Silfursafnið sitt í sextán þúsund eintökum. Reyndar rauf platan tíu þúsund eintaka platínumúrinn um síðustu jól en það er fyrst núna sem hann fær sjálfa plötuna afhenta, á árlegum sólstöðutónleikum í Grasagarðinum í Laugardal með Moniku hörpuleikara.

Til að ná inn fyrir kostnaði hljóðaði upphafleg kostnaðar­áætlun Palla vegna Silfursafnsins upp á fjögur þúsund eintök. Vegna hruns krónunnar breyttist hún í tíu þúsund eintök en núna eru sextán þúsund komin í hús. „Ég get ekki kvartað en mikil ósköp hefði verið huggulegt að ná kostnaðinum í fjögur þúsund eintökum eins og upphaflega planið var. Ég hefði ekki slegið hendinni á móti því að ná í þann pening. En ég get prísað mig sælan. Ég gæti gert plötu núna án þess að taka eitt einasta lán og þannig vil ég helst vinna."

Þess má geta að platan Allt fyrir ástina sem kom út 2007 hefur selst í svipuðu upplagi og Silfursafnið. Samanlagt hafa þær því selst í um þrjátíu þúsund eintökum á tveimur árum, sem er vitaskuld frábær árangur.

Sólstöðutónleikarnir á Café Flóra í Laugardalnum hafa verið haldnir nær óslitið síðan 2001. Hefjast þeir klukkan 23 og lýkur rétt eftir miðnætti. Spiluð verða lög af Silfursafninu í nýjum útsetningum auk annars góðgætis. Eftir það ganga gestirnir út í miðnætursólina, vonandi með bros á vör.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.