Lífið

Ósætti um íslenska tískuviku

Steinunn Sigurðardóttir vill að Fatahönnunarfélag Íslands fái afnot af nafninu Iceland Fashion Week.Fréttablaðið/hari
Steinunn Sigurðardóttir vill að Fatahönnunarfélag Íslands fái afnot af nafninu Iceland Fashion Week.Fréttablaðið/hari

Mikil umræða hefur skapast í kringum viðburðinn Iceland Fashion Week og eru Gunnar Hilmarsson, formaður Fatahönnunarfélags Íslands, og Steinunn Sigurðardóttir, fatahönnuður, í hópi þeirra hönnuða sem eru óánægðir með viðburðinn.

„Annars staðar í heiminum eru tískuvikur settar upp í samvinnu við fatahönnunarfélag þess lands, það er ekki tilfellið hér með Iceland Fashion Week. Okkur finnst við þurfa að vekja athygli á því að þetta er starfsgrein sem fólk hefur lífsviðurværi sitt af og því ætti ekki hver sem er að fá að ráðast í verkefni sem þetta," segir Steinunn Sigurðardóttir fatahönnuður. Hún er ósátt við Iceland Fashion Week sem Kolbrún Aðalsteinsdóttir ráðgerir að halda í október.

Nokkra athygli hefur vakið að engir íslenskir fatahönnuðir taka þátt í tískuvikunni og hefur Fréttablaðið áður sagt frá óánægju íslenskra hönnuða með hana. Harpa Einarsdóttir stofnaði til að mynda hóp á Facebook þar sem rúmlega átta hundrað manns hafa lýst sig andsnúna Iceland Fashion Week í núverandi mynd.

„Þegar erlendir fatahönnuðir og blaðamenn fá boðskort á Iceland Fashion Week þá gera þeir ráð fyrir að viðburðurinn sé unninn í samvinnu við Fatahönnunarfélagið sem auglýst er en í þessu tilfelli er það ekki. Við óttumst að þetta muni skaða þá miklu vinnu sem við höfum sett í að byggja upp fatahönnunariðnaðinn hér á landi," segir Gunnar Hilmarsson, formaður Fatahönnunarfélags Ísland, og tekur fram að hlutverk félagsins sé að styrkja stöðu íslenskra hönnuða á alþjóðamarkaði og koma hönnuðum á framfæri.

„Um fimmtíu manns eru skráðir í félagið, flestir eru í útflutningi á vörum sínum og því er mikilvægt að verja orðspor okkar á erlendri grundu. Fatahönnunarfélagið ætti að eignast Iceland Fashion Week og gera þetta faglega. Þeir sem lifa og hrærast í þessum heimi vita að það er það sem skiptir mestu máli," segir Steinunn. Hún segir að það kæmi til greina að gera þetta undir öðru nafni eins og stungið hefur verið upp á, en telur að það muni aðeins valda ruglingi. Gunnar samsinnir þessu og bætir við að það sé ekki nóg að halda góða tískusýningu, heldur verði hún að vera frábær og fagmannleg. „Alls staðar annars staðar mundi það hljóma út í hött að halda tískuviku án fatahönnuða," segir Gunnar að lokum.

sara@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.