Vélhjólaklúbburinn Fáfnir ætlar að opna nýtt klúbbhús í Hafnarfirði um næstu helgi. Fáfnir er opinber stuðningsklúbbur Hell's Angels klíkunnar sem ítrekað hefur reynt að ná fótfestu hér á landi.
Fáfnismenn voru áður með klúbbhús við Frakkastíg í miðbæ Reykjavíkur. Það hús komst í fréttirnar í nóvember árið 2007 þegar lögreglan réðst þar til inngöngu vegna fikniefnarannsóknar.
Sérsveit lögreglunnar tók þátt í aðgerðinni þar sem sérstök hætta var talin stafa af meðlimum klúbbsins.
Fáfnir er opinber stuðningsklúbbur Hell's Angel klíkunnar á Norðurlöndum sem meðal annars hefur verið bendluð við skipulagða glæpastarfsemi.
Hell's Angels - eða Vítisenglar hafa í fjölmörg ár reynt að ná fótfestu hér á landi og hefur lögreglan margoft vísað meðlimum samtakanna úr landi. Í apríl á síðasta ári var lögreglan með mikinn viðbúnað á Leifsstöð þegar hingað kom hópur Vítisengla til að vera viðstaddur veisluhöld á vegum Fáfnis.
Í skýrslu ríkislögreglustjóra um hryðjuverk og skipulagða glæpastarfsemi hér á landi er sérstaklega vikið að Fáfnir og tengslum þeirra við Vítisengla.
Fáfnismenn misstu húsnæði sitt við Frakkastíg á síðasta ári þegar leigusamningur rann út. Síðan þá hafa þeir verið á vergangi ef svo má að orði komast.
Nú hafa þeir komið sér fyrir í Hafnarfirði og ætla að opna klúbbhúsið formlega næstu helgi. Hefur fjölmörgum verið boðið að taka þátt í veisluhöldunum.Ekki liggur þó fyrir hvort Vítisenglar mæti í gleðskapinn.
Fáfnismenn voru í óða önn að leggja lokahönd á klúbbhúsið þegar fréttastofu bar að garði í dag. Klúbbhúsinu fylgir bílageymsla sem Fáfnismenn ætla að nota til tónleikahalds. Að sögn talsmanna klúbbsins hafa bæjaryfirvöld í Hafnarfirði veitt sitt samþykki sem og lögreglan.
Innlent