Lífið

Ellefu ára drengur bjargaði hundinum Neró

Hlynur Almar og Neró.
Hlynur Almar og Neró. Mynd/ Úr einkasafni

Ellefu ára drengur reyndist hetja Dobermann hvolps sem týndist í síðustu viku.

Dobermann hvolpurinn Neró týndist í Innri Njarðvík miðvikudagskvöldið 27. maí, á eins árs afmælisdegi sínum þegar hann var í pössun. Mikil leit hófst um leið og voru sumir að frá morgni til kvölds.

Hlynur Almar Sölvason, ellefu ára piltur úr Keflavík fann svo hundinn á sunnudagskvöldið. Hann og móðir hans, María Magnúsdóttir, fóru þá að leita að Neró en þau höfðu tekið þátt í leitinni áður. Að sögn Maríu móður Hlyns Almars voru þau harðákveðin í að finna Neró þetta kvöld því hann væri örugglega orðinn þrekaður. Þau leituðu meðfram Reykjanesbraut, fóru alla strandlengjuna og enduðu í Helguvík.

Þegar til Helguvíkur kom hrópaði Hlynur Almar: „Ég sé Neró!" Hann hafði fundið hundinn. „Við höfðum kippt með okkur pylsupakka til að lokka hann til okkar. Það tókst vel með pylsunum og alls konar látbragði," segir María Magnúsdóttir, móðir Hlyns. Neró var kaldur, hrakinn, svangur og með blóðuga þófa. „Við munum aldrei gleyma viðbrögðum og þakklæti eigandans sem hafði leitað að Neró stöðugt í fjóra sólarhringa, þvílíkir fagnaðarfundir," segir María.

Eljan í Hlyni Almari var ótrúleg að sögn Maríu, hundinn skyldi hann finna. María og Hlynur eru hundaeigendur og miklir dýravinir. Jana Kristín eigandi hundsins vill koma á framfæri sérstöku þakklæti til Hlyns Almars og Maríu svo og til allra sem lögðu mikið á sig til að leita að Neró. „Það er frábært þegar fólk sýnir svona mikla samstöðu og samstarfsvilja, svona á þetta að vera. Hundurinn er eins og einn af fjölskyldunni," segir Jana Kristin hin sælasta með að hafa endurheimt Neró.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.