Innlent

Fékk að kaupa krónur sem Svíi en ekki sem Íslendingur

Gunnar Örn Jónsson skrifar

Íslendingur skipti í dag erlendum gjaldeyri í íslenskar krónur án nokkurrar fyrirhafnar þar sem hann talaði sænsku en átti í meiri vandræðum með það sem Íslendingur. Í hvert sinn sem Íslendingar kaupa gjaldeyri, þurfa þeir að framvísa flugmiða og viðskipti þeirra eru umsvifalaust skráð niður á viðkomandi einstakling með því að tengja kennitölu hans við viðskiptin. Ætla mætti að ekki giltu sömu reglur þegar kemur að því að skipta erlendum gjaldeyri í íslenskar krónur þar sem ríkið sárvantar erlendan gjaldeyri.

Íslendingur sem hafði samband við fréttastofu fór í banka í dag í þeim tilgangi að skipta erlendum gjaldeyri í íslenskar krónur. Hann var beðinn um kennitölu en viðskiptavinurinn sagðist ekki þurfa að upplýsa starfsmann bankans um slíkt. Viðskiptavininum var bent á það að hann gæti einfaldlega átt viðskipti annars staðar ef hann vildi ekki gefa upp hverra manna hann væri. Ekki var um að ræða háar fjárhæðir.

Útlendingar geta hvar og hvenær sem er skipt gjaldeyri í íslenskar krónur og dó maðurinn því ekki ráðalaus. Hann snéri sér að öðrum viðskiptabanka í eigu ríkisins og í þetta sinn ákvað hann að tala sænsku. Að þessu sinni keypti hann íslenskar krónur án nokkurra vandkvæða. Maðurinn hafði samband við persónuvernd sem tjáði honum að ekki þyrfti að framvísa kennitölu við kaup á íslenskum krónum nema þegar um verulegar fjárhæðir væri að ræða.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×