Innlent

Bólusetningarlyf gegn H1N1 munu kosta allt að 400 milljónum

Helga Arnardóttir skrifar
Haraldur Briem sóttvarnarlæknir býst við að lyfin kosti á bilinu 3-400 milljónir. Mynd/ GVA.
Haraldur Briem sóttvarnarlæknir býst við að lyfin kosti á bilinu 3-400 milljónir. Mynd/ GVA.
Áætlað er að kostnaður við kaup á bólusetningarlyfjum gegn svínaflensu verði á bilinu 300 - 400 milljónir að sögn sóttvarnarlæknis. Keyptir verða um þrjú hundruð skammtar en búist er við að bólusetja þurfi hvern einstakling tvisvar.

Haraldur Briem sóttvarnarlæknir býst við að annar hver Íslendingur veikist af inflúensu H1N1 eða svínaflensu í vetur. Nú þegar hafa fjórir smitast af flensunni hér á landi. Bretar og Norðmenn munu bjóða öllum þegnum landanna bólusetningu, en hér verður aðeins til bóluefni fyrir helming íslensku þjóðarinnar. Haraldur segir að stefnt verði að því að kaupa þrjúhundruð þúsund skammta, en búist er við því að bólusetja þurfi hvern einstakling tvisvar þar sem um nýja veiru sé að ræða.

Hafist verði handa við bólusetningar í haust þegar lyfin koma en fólk í áhættuhópi verði bólusett fyrst. Í þeim hópi teljist sextíu ára og eldri en einnig yngra fólk sem glímir við hvers kyns sjúkdóma. Haraldur segist ekki geta gefið upp nákvæma tölu yfir kostnað bólusetningarlyfjanna en talið er að þau kosti á bilinu þrjú til fjögurhundruð milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×