Innlent

Hæstiréttur klofinn í kynferðisbrotamáli

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands.

Hæstiréttur Íslands klofnaði varðandi farbannsúrskurð yfir bandarískum karlmanni sem er gefið að sök að hafa haft samræði við konu með blekkingum.

Úrskurður um farbann var felldur úr gildi en Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson voru sammála því að farbann væri of íþyngjandi aðgerð fyrir manninn sem var hér á landi sem ferðamaður þegar brotið á að hafa átt sér stað.

Þriðji dómarinn, Viðar Matthíasson skilaði inn sérákvæði þar sem stóð að hann teldi að maðurinn ætti að vera áfram í farbanni. Jón Steinar skilaði einnig séráliti þar sem hann tíundaði ástæður þess að hann væri sammála Ólafi Berki um að Bandaríkjamaðurinn ætti ekki að sæta áframhaldandi farbanni sem hefur verið í gildi síðan um miðjan maí.

Athygli vekur að í rökum Jóns Steinar kemur fram að hann telji að ekki sé fyrir hendi rökstuddur grunur um að maðurinn hafi orðið uppvís af því sem hann hefur verið ákærður fyrir. Ástæðuna telur hann vera að enginn sé til frásagnar nema maðurinn og konan. Orðrétt segir í dómnum:

„Ekki verður séð að unnt sé með frekari sönnunarfærslu að renna stoðum undir staðhæfingar kæranda um villu sína, þar sem hún og varnaraðili eru ein til frásagnar um það sem gerðist.

Er að mínum dómi óhjákvæmilegt að taka tillit til þess, þegar metið er hvort grunur á hendur varnaraðila teljist rökstuddur í skilningi nefnds lagaákvæðis, þannig að skilyrði séu til að beita hann enn þeirri þvingun sem felst í farbanni.

Tel ég að ekki geti talist um slíkan grun að ræða og því séu ekki fyrir hendi skilyrði til að fallast á kröfu sóknaraðila."

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 7. júlí síðastliðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×