Fjölmörg prófkjör fara fram á næstu dögum og því fara línur að skýrast hverjir munu leiða framboðslista flokkanna. Kosið verður til Alþingis eftir 49 daga.
Um helgina ráðast úrslit í fimm prófkjörum auk þess sem að framsóknarmenn í Reykjavík stilla upp á sína framboðslista og kynnt verða úrslit úr póstkosningu flokksins í Suðurkjördæmi.
Þrjú netprófkjör hjá Samfylkingunni
Samfylkingin efnir að þessu sinni til netkosninga í öllum kjördæmum og er kosning hafin í prófkjörum flokksins í Suður-, Norðvestur- og Norðausturkjördæmi. Prófkjörunum í Suður- og Norðaustkjördæmi líkur á morgun en á sunnudaginn klukkan 18 í Norðvesturkjördæmi.
Prófkjörin í Norðaustur- og Suðurkjördæmi eru opin öllum kosningabærum íbúum í kjördæmunum. Kosning í Norðvesturkjördæmi er nýhafin en í hinum tveimur hófst kosningin í gær og höfðu 500 mann kosið í sitthvoru kjördæminu klukkan átta í morgun.
Eysteinn Eyjólfsson, formaður kjörstjórnar í Suðurkjördæmi, segir kjörsókn vaxandi. Hann ítrekar að prófkjörið er opið öllum íbúum kjördæmisins og hann hvetur fólk til kjósa í dag. Prófkjörinu lýkur klukkan 18 á morgun og á Eysteinn von á fyrstu tölum hálf tíma síðar. Úrslit ættu að liggja fyrir fljótlega eftir það.
Línur skýrast hjá framsóknarmönnum
Framsóknarflokkurinn í Suðvesturkjördæmi efnir til prófkjörs á morgun í félagsheimili flokksins við Digranesveg í Kópavogi frá klukkan 9 til 18. Búið er að loka kjörskrá. Ekki er hægt að greiða atkvæði utan kjörfundar.
Framsóknarmenn í Reykjavík koma saman klukkan 10 í fyrramálið á Hilton Reykavík Nordica til að kjósa um tillögu uppstillingarnefndar um framboðslista flokksins.
Á sunnudaginn fer fram kjördæmaþing Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi á Selfossi. Þingið hefst klukkan 13 og þar verða kynntar niðurstöður úr póstkosningu sem fór nýverið fram. Talning atkvæða fer fram á morgun.
Prófkjör VG í Reykjavík
Vinstri grænir í Reykjavík efna til prófkjörs á morgun. Kjörskrá lokar í kvöld en hægt verður að kjósa á skrifstofu flokksins við Suðurgötu frá klukkan 10 til 22 annað kvöld. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla fer fram á milli 16 og 21 í dag.