Erlent

Innbrotsþjófar styðjast við Facebook

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Tryggingafélag í Bretlandi varar við því að innbrotsþjófar séu nú farnir að safna upplýsingum um væntanleg fórnarlömb af vefjum á borð við Facebook og Twitter.

Hugsaðu þig tvisvar um áður en þú segir vinum þínum á samskiptavefjunum Facebook eða Twitter frá því að þú sért á leið í frí utan heimilisins eða hafir verið að kaupa þér glæný hljómflutningstæki. Það eru nefnilega fleiri en vinir þínir sem hafa tök á að kynna sér þessar upplýsingar, segja talsmenn tryggingafélagsins Legal & General í Bretlandi.

Ný skýrsla félagsins, sem ber titilinn Hinn stafræni skúrkur, eða „The Digital Criminal", leiðir í ljós að þeir sem fólk telur til svokallaðra vina á Facebook og hefur viðurkennt sem slíka reynast oft hin mestu varmenni enda gjarnan fólk sem notandinn þekkir lítið eða ekkert til. Í 13 prósentum tilvika viðurkenna Facebook-verjar fólk sem biður um að teljast vinir þeirra án þess að hafa hugmynd um hver þar er á ferð.

Enn uggvænlegri er sú staðreynd að 38 prósent notenda Facebook segja þar frá væntanlegum ferðalögum og 64 prósent fólks á aldrinum 16 - 24 ára birta ferðaáætlun í smáatriðum á vefnum áður en lagt er á stað. Hverjum er ekki nákvæmlega sama um hvar þú ætlar að vera í hádeginu næsta miðvikudag í sumarfríinu þínu? Foreldrum þínum kannski en líka óprúttnum aðilum sem hafa í hyggju að vera heima hjá þér þegar þú ert þar ekki.

Þetta segja bæði Legal & General og Michael Fraser, fyrrum innbrotsþjófur sem komið hefur fram í þáttum BBC, Þrykkjum þjófinn eða „Beat the Burglar".






Fleiri fréttir

Sjá meira


×