Innlent

Minnst áhrif af 2+1 vegi

Skipulagsstofnun hefur gefið það út að minnst umhverfisáhrif verði vegna breikkunar Suðurlandsvegar, verði vegurinn þrjár akreinar; svokallaður 2+1 vegur. Þetta kemur fram í mati stofnunarinnar sem kom út í gær.

Þar segir að neikvæðustu umhverfisáhrifin verði vegna lagningar 2+2 vegar með mis­lægum gatnamótum. Slíkur vegur veldur langmestu röskuninni og felur í sér verulega neikvæð áhrif á nútímahraun og búsvæði fugla. „Áhrif svo umfangsmikillar breikkunar hefur í för með sér talsvert neikvæð áhrif á gróður, landslag, fornminjar og útivist," segir í skýrslunni.

Skipulagsstofnun mat áhrifin af því að tvöfalda eða aðskilja aksturs­stefnuna um Suðurlandsveg frá Hólmsá austur að Hveragerði. Allir kostirnir hafi jákvæð áhrif á umferðaröryggi.

„Verði valinn umfangsminni kostur við tvöföldun vegarins verða umhverfisáhrif hans minni. Skipulagsstofnun telur að áhrif 2+2 vegar með vegamót í plani muni hafa talsvert neikvæð áhrif á nútímahraun en minni áhrif á lífríki, landslag, útivist, hljóðvist og fornminjar heldur en 2+2 vegur með mislægum vegamótum." - kóp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×