Erlent

Japanar skera 100 ára bikar við nögl

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Japanskur öldungur. Þeim fjölgar nú sem aldrei fyrr.
Japanskur öldungur. Þeim fjölgar nú sem aldrei fyrr.

Svo margir Japanar eru nú 100 ára og eldri að silfurbikarinn, sem gefinn er þeim sem ná þessum aldri, hefur verið minnkaður í sparnaðarskyni.

Fimmtándi september er eins konar hátíðisdagur eldri borgara í Japan en þeim fjölgar nú sem aldrei fyrr, 21 prósent þjóðarinnar er eldri en 65 ára og fari sem horfir verður sá hópur kominn í 40 prósent árið 2055. Hefð er fyrir því að 15. september er þeim sem áttu 100 ára afmæli á árinu gefinn silfurbikar frá heilbrigðisráðuneytinu til minningar um þennan merkisáfanga en nú er svo komið að þetta þykir bara orðið allt of dýrt.

Núna eru rúmlega 36.000 Japanar eldri en 100 ára og þeim fer ekkert fækkandi. Hið opinbera hefur því neyðst til að grípa til niðurskurðarhnífsins eins og efnahagsástandið er þessa dagana og minnka silfurbikarinn svo hann minnir nú meira á eggjabikar en almennilegan verðlaunagrip fyrir að tóra í heila öld. Talsmaður heilbrigðisráðuneytisins segir að ekki hafi þótt ráðlegt að leggja þennan merkilega og forna sið niður og því hafi sú leið verið farin að minnka heldur bikarinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×