Íslenski boltinn

Coventry biður Blika afsökunar á ummælum Coleman

Chris Coleman
Chris Coleman NordicPhotos/GettyImages

Forráðamenn Coventry City á Englandi hafa beðið knattspyrnudeild Breiðabliks afsökunar á ummælum Chris Coleman knattspyrnustjóra þar sem hann tjáði sig um viðleitni félagsins til að kaupa Blikann Jóhann Berg Guðmundsson.

Mál Jóhanns var hið flóknasta en eins og flestir vita er leikmaðurinn genginn í raðir AZ Alkmaar í Hollandi eftir að hafa vikum saman verið orðaður við hollenska félagið, Hamburg í Þýskalandi og svo Coventry á Englandi.

"Í kjölfar ummæla Chris Coleman knattspyrnustjóra um Jóhann Berg Guðmundsson viljum við að komi fram að Coventry var aldrei með samkomulag á borðinu um kaup á leikmanninum. Við viljum koma á framfæri afsökunarbeiðni til Breiðabliks vegna óþæginda sem upp kunna að hafa komið vegna þessa," segir í yfirlýsingu frá félaginu í kvöld.

Jóhann Berg stóðst í dag læknisskoðun hjá AZ í Hollandi en félögin höfðu áður komist að samkomulagi um kaupverðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×