Vísir hafði samband við Heiðar Jónsson snyrti sem fylgist gaumgæfilega með Guðrúnu Dögg Rúnarsdóttur ungfrú Ísland sem keppir í Miss World fyrir Íslands hönd en aðalkeppnin fer fram í Suður-Afríku í desember.
„Í gær var Guðrún Dögg valin í úrslitakeppnina fyrir „beach beauty" keppnina, sem útleggst eitthvað eins og „flottust í baðfötum" en það á eftir að velja í keppnina „besta sýningarstúlkan" og ég er að vona að Guðrún veljist þar inn líka," segir Heiðar.

„Það komast fimm stúlkur inn í fimmtán stúlkna lokaúrslit keppninnar með því að vinna fimm útsláttarkeppnir."
„Svo koma fimm álfudrottningar. Heimsálfunum er breytt til að jafna fjölda stúlkna í hvorum hóp. Endanlega velur dómnefnd fimm fegurstu stúlkurnar þar fyrir utan," segir Heiðar.
Meðfylgjandi má sjá myndir sem Arnold Björnsson tók af Guðrúnu Dögg.