„Ég er núna á leiðinni í Miss World 6. nóvember," segir Guðrún Dögg Rúnarsdóttir Ungfrú Ísland 2009 þegar Vísir forvitnast hvað hún er að brasa.
„Það eru 120 keppendur og við munum ferðast mikið á milli staða. Það er gaman að segja frá því að við bjóðum upp á þjóðargjafirnar okkar. Þjóðargjöf er eitthvað sem að hver keppandi kemur með frá sínu landi og kynnir hana á sviði. Hún Dýrfinna Torfadóttir skartgripahönnuður er að smíða mína," segir Guðrún.

„Þetta er rosa stór viðburður og á lokakvöldinu komum við, 120 stelpur, fram í „designers kjólum" eftir flottan hönnuð frá okkar landi. Sá hönnuður sem vinnur þá keppni hlýtur titilinn „world class designer" en Andersen og Lauth lána mér glæsilegan kjól til að vera í á þessu kvöldi."
„Ég verð úti í 5 vikur í heildina og kem svo heim 16. desember. Það er rosalegur tími og vinna sem fer í undirbúning fyrir svona keppni en það er algjörlega þess virði."

„Ég er í einkaþjálfun hjá Garðari Sigvalda í Sporthúsinu en hann er að koma mér í toppform áður en ég held út. Ég hef tekið mataræðið alveg í gegn svo að ég líti nú sæmilega út," segir Guðrún.
„Samhliða því fer ég reglulega í Trimform Berglindar. Síðan er rosa mikið af kjólum og svona fíneríi sem að ég tek út með mér því við erum stanslaust í myndatökum og viðtölum og þurfum alltaf að vera vel til fara."

„Nína fatabúð á Akranesi er að styrkja mig. Ég fékk fullt af flottum fötum hjá þeim sem ég get bæði notað dagsdaglega og á „dinnerunum" á kvöldin. Síðan er Heiðar Jóns æðibiti auðvitað að hjálpa mér að æfa göngulagið á sviðinu og svona."
Ertu lofuð? „Nei ég er ekki lofuð. Ég var á föstu í tvö og hálft ár með yndislegum strák en við hættum saman fyrir nokkrum mánuðum en höldum enn sambandi og erum góðir vinir."
Arnold Björnsson tók meðfylgjandi myndir af Guðrúnu.