Innlent

Vildu ræða utanríkismálaskýrslu á NATO afmæli

Nokkrar umræður sköpuðust í þinginu í dag undir liðnum störf þingsins vegna þess að 60 ár eru liðin í dag frá því að Íslendingar ákváðu að ganga í Atlantshafsbandalagið, NATO. Ekkert var þó minnst á það í dagskrá þingsins fyrir daginn í dag.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir varaformaður flokksins benti á þetta og spurði Guðbjart Hannesson forseta Alþingis hvort ekki hefði verið við hæfi að ræða nýframlagða skýrslu utanríkisráðherra um utanríkismál. Þorgerður sagði að farið hefði vel á því að ræða skýrsluna á þessum afmælisdegi.

Guðbjartur svaraði því til að hann hefði ekki áttað sig á því að 60 ár séu í dag liðin frá inngöngunni í Nató. Þar fyrir utan hefði enginn lagt það til að skýrsla utanríkisráðherra yrði sérstaklega rædd í dag. Hann sagðist búast við því að skýrslan verði tekin fyrir en það fari eftir því hve vel gangi að afgreiða önnur mál í þinginu.

Í kjölfarið komu nokkrir þingmenn í pontu og ýmist lýstu því yfir að inngangan í NATO hefði verið eitt helsta gæfuspor íslensku þjóðarinnar eða feilspor.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG sagði að Sjálfstæðismenn gætu einfaldlega haldið upp á afmæli hernaðarbandalagsins NATO í Valhöll, eða jafnvel í „Offiseraklúbbnum" á vallarsvæðinu, sem honum skilst að búið sé að opna fyrir almenningi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×