Innlent

Veiða síld í kapp við sýkilinn

Síldarkvóti sem sjávarútvegsráðherra gaf út í dag á sýktu síldina, gæti skilað allt að fjögurra milljarða króna gjaldeyristekjum. Vinnslustöðar telja síldina hæfa til frystingar ef flotanum tekst að veiða hana nógu fljótt áður en sýkingin breiðist út í holdið.

Um tíma var búst við að veiðar yrðu bannaðar. Ráðherra tilkynnti hins vegar um fjörutíu þúsund tonna upphafskvóta sem leiðir væntanlega til þess að flotinn mun flykkjast inn á Breiðafjörð þar sem íslenska sumargotssíldin er nú í stórum torfum.

Útflutningsverðmæti þessa síldarkvóta áætla menn 3-4 milljarða króna, en þeirra fjármuna munu síldarplássinn vítt og breitt um landið einkum njóta góðs af. Langstærstu síldarbæirnir undanfarin ár hafa verið Vestmannaeyjar, Hornafjörður og Neskaupstaður en peningarnir munu væntanlega einnig snerta Þórshöfn, Vopnafjörð, Seyðisfjörð, Fáskrúðsfjörð og Akranes.

Útgerðir hyggjast leggja áherslu á að veiða síldina sem fyrst því stór hluti hennar er sýktur og því fyrr sem hún veiðist, því meiri líkur eru taldar á að unnt verði að frysta hana til manneldis.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×