„Við horfum fram á ískaldan vetur og stjórnvöld verða án tafar að grípa til aðgerða til að örva byggingariðnaðinn“, segir Gunnar H. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Sementsverksmiðjunnar á Akranesi. Framleiðslu verður hætt 1. nóvember og fyrirtækið er í verulegum vandræðum ef ekki rætist úr.
Gunnar segir að samdráttur í framleiðslu fyrirtækisins í kjölfar efnahagshrunsins sé allt að 45 prósent og hvað nánasta framtíð ber í skauti sér fyrir verksmiðjuna snúi að stjórnvöldum í tvennum skilningi.
„Það verður að ráðast í stórframkvæmdir og má nefna Búðarhálsvirkjun og Vaðlaheiðargöng í því sambandi. Það myndi hjálpa til ef fyrirtæki í eigu ríkisins myndu kaupa íslenska framleiðslu en ekki innflutt danskt sement.“
Vilhjálmur Birgisson, formaður verkalýðsfélags Akraness, segir gagnrýnivert að á meðan íslenskt fyrirtæki berjist fyrir lífi sínu kaupi ríkið innflutt danskt sement í þúsunda tonna vís.
„Aalborg Portland á Íslandi er búið að flytja inn 20 þúsund tonn af sementi á þessu ári fyrir 240 milljónir króna, og stærsti viðskiptavinurinn er Steypustöðin hf., sem er í eigu ríkisbankans Íslandsbanka. Vegagerðin notar líka danskt sement.“
Gunnar segir að 20 þúsund tonna framleiðsla myndi tryggja starfsemi Sementsverksmiðjunnar í tvo mánuði. Í verksmiðjunni starfa 45 manns en stöðvun hennar er talin koma við um 120 manns þegar afleidd störf eru tekin með í reikninginn.
Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir það skjóta skökku við að ríkisfyrirtæki kaupi innflutta vöru á sama tíma og íslensk fyrirtæki berjast í bökkum.
„Við höfum beint því til landsmanna og okkar félagsmanna að versla hverjir við aðra. Það gildir um þetta líka.“
Jón leggur áherslu á að í sjálfu sér sé ekkert út á kaup fyrirtækja á innfluttu sementi að setja í sjálfu sér. Málið snúist frekar um það hvort verksmiðjan verði sett í gang aftur og hvort hér verði dönsk einokun á sementi þegar fram í sækir.
„Þetta ættu menn að hafa í huga þegar þeir ákveða hvar þeir kaupa inn,“ segir Jón. - shá
