Erlent

Abbas hvetur Palestínumenn til að sýna samstöðu

Guðjón Helgason skrifar
Mahmoud Abbas.
Mahmoud Abbas. MYND/ap

Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna og leiðtogi Fatha-hreyfingarinnar á Vesturbakkanum, hvetur öll samtök Palstínumanna til að senda fulltrúa til viðræðna í Egyptalandi hið fyrsta. Á þeim fundi verði tekið á deilumálum hreyfinganna og reynt að koma á sáttum fyrir fullt og fast. Abbas segir að fundað verði eins lengi og þurfa þyki.

Vopnahlé er á Gaza þar sem Hamas-samtökin ráða ríkjum eftir þriggja vikna árásir Ísraela sem kostuðu þrettán hundruð Palestínumenn lífið.

Abbas segir að nú þurfi að koma á fót þjóðstjórn allra hreyfinga Palestínumanna. Henni verði síðan falið að tryggja að aflétt verði átján mánaða herkví Ísraelar á Gaza. Stjórninni verði einnig falið að sjá um endurreisn Gaza og að skipuleggja þing- og forsetakosningar Palestínumanna.

Fatah-hreyfing Abbas og Hamas hafa deilt síðan um mitt ár 2007 þegar Hamas tók völdin á Gaza af Fatah. Áður hafði Hamas unnið sigur í þingkosningum 2006. Fatah og Abbas ráða enn Vesturbakkanum og njóta stuðnings vesturveldanna. Leiðtogar margra Arabaríkja, þar á meðal á Sýrlandi, segja Abbas veikan leiðtoga og þar með samtökin hans einnig veik.

Leiðtogar nokkurra Arabaríkja hafa komið saman til funda síðustu daga en ljóst er að Arabaheimurinn í klofinn í afstöðunni til þess hvað eigi að gera næst og það kemur skýrt fram á fundi í Kúvæt í dag þar sem rædd eru næstu skrefin til hjálpar Palestínumönnum á Gaza. Egyptar, Sádí Arabar og bandamenn þeirra vilja styðja Abbas og hafa jafnvel gengið svo langt að kenna Hamas um. Segja þá hafa boðið upp á árásir með því að vilja ekki framlengja vopnahléð sem var í gildi þar til í byrjun desember. Sýrlendingar, ráðamenn í Katar og bandamenn þeirra vilja hins vegar skilgreina Ísraela sem hryðjuverkamenn eftir árásirnar á Gaza.

En hvað sem því líður er búist við að leiðtogarnir samþykki stofnun tveggja milljarða dala sjóðs sem úr verður veitt fé til endurbyggingar á Gaza.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×