Innlent

Ljósið var lofsteinn sem splundraðist með tilþrifum

Lofsteinn. Mynd/stjornuskodun.is.
Lofsteinn. Mynd/stjornuskodun.is.

„Þetta var örugglega lofsteinn sem splundraðist með tilþrifum," segir Sævar Helgi Bragason formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness og einn af stjórnendum vefjarins Stjörnuskoðun.is. Þegar framburður sjónarvottanna sem sáu mikla ljósrák á austurhimni síðdegis er borinn undir Sævar segir hann lýsingarnar ríma nokkurn veginn við það að lofsteinn hafi splundrast þegar hann kom inn í gufuhvolfið.

Spurður út í framburð eins sjónarvottsins sem var í Bláa Lóninu þegar hann sá lofsteininn, en hann lýsti hrapinu eins og það væri mjög nálægt honum, segir Sævar Helgi: „Það er mjög algengt að manni finnist þeir vera mjög nálægt en lofsteinninn er sennilega í tug kílómetra hæð."

Sævar segist frekar búast við því að ef steininn hafi náð til jarðar þá hafi hann endað í hafinu. Hann áréttar þó að hann viti ekki nóg um hrapið til þess að fullyrða neitt um það.

„Þetta er miklu algengara en maður heldur," segir Sævar Helgi en það er ekki nema nokkrar vikur síðan annað eins hrap náðist á myndavél lögreglunnar sem var á leiðinni austur til Selfoss. Sævar segir þetta hrap sennilega hafa verið svipað nema svo virðist sem að um tilkomumeira hrap hafi átt sér stað nú.

Spurður hvort slík hröp séu að verða tíðari hér á himnum segir Sævar að svo sé alls ekki, veðrið hafi einfaldlega verið hagstæðara og á þá við að það sé búið að vera léttskýjað undanfarið.

„Svo er bara að horfa sem oftast upp," segir Sævar Helgi um stjörnuhröpin en eitt slíkt á sér stað hér á landi mánaðarlega. Hægt er að fræðast um stjörnuhröp og lofsteina á vefsíðunni Stjörnuskoðun.is en þar má lesa allan mögulegan fróðleik um allt sem er tengt stjörnum og himingeimnum.


Tengdar fréttir

Dularfullt ljós á himnum - sennilega stjörnuhrap

Allnokkrir hafa hringt inn á fréttastofu og segjast hafa séð skært ljós á himnum sem hrapaði til jarðar. Einn sjónarvotturinn taldi að þarna hafi verið óvanalega bjart stjörnuhrap. Svo virðist sem það hafi verið á suðurlandi en annar sjónarvotturinn sem var gestur í Bláa lóninu sagði fyrirbærið hafa verið svo skært og mikið að það virtist mjög nálægt. Fyrirbærið sást um klukkan hálf sex í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×