Erlent

Ferð Clintons bar árangur

Bill Clinton.
Bill Clinton.

Heimsókn Bills Clintons fyrrverandi Bandaríkjaforseta til Norður Kóreu bar árangur því blaðakonurnar tvær sem hann vildi fá lausar úr haldi voru um borð í þotu hans á heimleiðinni en hann hélt til Bandaríkjanna í nótt.

Þær Laura Ling og Euna Lee hafa verið í haldi í landinu frá því í mars og voru nýverið dæmdar til 12 ára þrælkunarvinnu. Clinton hitti leiðtoga landsins, Kim jong-il í gær og í framhaldi af því náðaði leiðtoginn konurnar, sem eru bandarískir ríkisborgarar. Þær flugu til Los Angeles þar sem ættingjar þeirra taka á móti þeim síðar í dag.

Yfirvöld í Bandaríkjunum segja að Norður Kóreumenn hafi fallist á aðkomu Clintons að málinu og að fyrirfram hafi verið ákveðið að það tengdist ekkert kjarnorkutilraunum landsins og viðskiptabanni sem Norður Kórea þarf að sæta vegna þeirra. Clinton er annar fyrrverandi Bandaríkjaforsetinn sem heimsækir landið en Jimmy Carter kom þangað árið 1994. Þá heimsótti Madeileine Albright þáverandi utanríkisráðherra í ríkisstjórn Clintons höfuðborgina Pyongyang árið 2000.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×