Erlent

Danskar löggur segja slagsmálasögur á Facebook

mynd úr safni

Lögreglumenn í Dönsku borginni Bröndby liggja nú undir ámæli eftir að nokkrir þeirra skrifuðu skeyti á Fésbókarsíðu kollega síns. Í skrifunum lýsa lögreglumennirnir ánægju sinni með átök sem þeir lentu í á dögunum við pólska fótboltaáhangendur en 113 voru handteknir í slagsmálunum.

Á samskiptasíðunni Facebook stæra lögreglumennirnir sig af góðri framgöngu sinni og segja að leikar hafi farið 1 - 0 fyrir Dönum, og eru þá ekki að tala um fótbolta. Einn þeirra lýsir ánægju sinni með slagsmálin og segir hressandi að hitta fótboltabullur sem hlaupi ekki í burtu um leið og þeir sjái lögguna. Hann bætir því við að sumir þeirra sjái þó örugglega eftir því í dag að hafa tekið á móti dönununum.

Lögreglustjórinn á svæðinu er ekki ánægður með skrifin og verða mennirnir teknir á teppið að hans sögn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×