Innlent

Eignafrysting var nauðsynleg

Það var rétt af Bretum að beita hryðjuverkalögunum gegn Landsbankanum á sínum tíma, til að tryggja fjármálastöðugleika í Bretlandi, segir Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, í svarbréfi til Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra.

Í bréfinu, sem Fréttablaðið hefur afrit af, segist Brown hins vegar ætla að fara vandlega yfir, og bregðast við, skýrslu bresku þingnefndarinnar, sem komst að því að beiting laganna hefði verið afar gagnrýniverð.

Brown segir breska fjármálaráðuneytið einnig ætla að taka lögin til skoðunar, samkvæmt tilmælum nefndarinnar.

Jóhanna skrifaði Brown bréf 7. apríl og ræddi meðal annars skýrsluna. „Ég hefði mikinn áhuga á að heyra hvernig ríkisstjórn þín muni bregðast við niðurstöðunni og sérstaklega hvort frystingunni á Landsbanka verði aflétt," sagði hún. Slík sáttaumleitan yrði metin að verðleikum.

Einnig harmaði Jóhanna að hún hefði ekki komist á Nató-fundinn síðasta og tilkynnti að íslensk Icesave-samninganefnd hefði verið skipuð. Sú hefði umboð til að ná niðurstöðu í samningunum, í samræmi við þær línur sem lagðar voru í Brussel í nóvember. Jóhanna sé tilbúin að gera sitt allra ítrasta til að leysa Icesave-deiluna.

Þá segist forsætisráðherra vilja hafa góð tvíhliða tengsl við Bretland. Þá minnir hún á sameiginlega hagsmuni, til að mynda í baráttu gegn skattaskjólum. Í þá þágu hafi Íslendingar fengið Evu Joly sér til liðs.

Svarbréf Browns er frá 24. apríl. Fyrir utan það sem á undan segir, tekur hann þar undir með Jóhönnu að brýnt sé að Icesave-deilan verði leyst og að þjóðin standi við skuldbindingar sínar. Einnig minnist hann á skattaskjólin og að fjármálaráðuneyti sitt hafi boðið upp á tvíhliða viðræður um þau.

„Ég er í engum vafa um að samskipti Íslands og Bretlands eiga sér bjarta framtíð, horft áfram veginn," segir Brown í lokin. Fréttablaðið bar efni bréfanna undir Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing. Hann segir bréf Jóhönnu hljóma kurteislega en að greina megi alvarlegan undirtón. Mörgum hafi virst nokkur sigur unninn með skýrslu bresku nefndarinnar. Jóhanna spyrji því sem svo hvort ekki eigi að bregðast við þessu.

„En í þessu bréfi gefur Brown ekkert pláss fyrir neinn efa um að íslenskum stjórnvöldum beri að ábyrgjast Icesave-reikningana. Það er enginn vafi þar," segir Guðni. Mergur málsins, að mati Browns, sé sá að ákveðnar ástæður hafi verið fyrir eignafrystingunni.

„Og Jóhanna gat þá fengið það staðfest enn einu sinni að það yrði erfitt að taka eina runu til viðbótar í þeim leik," sagði Guðni.- kóþ






Fleiri fréttir

Sjá meira


×