Lífið

Þrá og ástríða

Fern nevjinsky
Fern nevjinsky

Í gær fór fram doktorsvörn við íslensku- og menningardeild hugvísindasviðs við Háskóla Íslands í Hátíðarsal. Fern Nevjinsky varði þá ritgerð sem hún nefnir: Désir et passion dans l'œuvre dramatique de Jóhann Sigurjónsson, eða Þrá og ástríða í leikverkum Jóhanns Sigurjónssonar.

Doktors­ritgerð þessi var lögð fram samtímis við Háskóla Íslands og Université Paris IV-Sorbonne samkvæmt samstarfssamningi skólanna frá 2003. Hún er rituð á frönsku en henni fylgir ítarlegt ágrip á íslensku.

Leiðbeinendur voru prófessor Torfi H. Tulinius og prófessor Marc Auchet.

Höfundur var um árabil dósent í sálarfræði við háskólann í Rúðuborg, auk þess sem hún starfaði sem sálgreinir um áratuga skeið. Á miðjum aldri hóf hún nám í norrænum bókmenntum við Sorbonne og er ritgerð þessi lokaáfangi á þeirri leið. Hún nýtir sér umtalsverða sérþekkingu sína á sálgreiningu til að nálgast leikrit Jóhanns Sigurjónssonar á nýstárlegan hátt.

Ritgerðin skiptist í átta kafla auk inngangs þar sem greint er frá tilgangi höfundar og aðferðum hans lýst, og lokakafla þar sem helstu niðurstöður hans eru dregnar saman. Um er að ræða ítarlega greiningu á leikverkum Jóhanns með aðferðum sálgreiningar.

Megintilgáta doktorsefnisins er sú að þrár persóna Jóhanns Sigurjónssonar leiðir þær út í ástríður, sem opna leiðina fyrir andlegu hruni þeirra með allsherjar afturhvarfi til frumstiga sálarlífsins.

Með aðferðum bókmenntafræðinnar, en einnig með skírskotun til skrifa Sigmunds Freud, Jacques Lacan og fjölda annarra höfunda úr röðum sálgreinenda, er farið í gegnum öll leikrit Jóhanns. Athyglinni er einkum beint að þróun persónanna í leikverkunum.

Í lokakafla er kastljósinu beint að frægustu leikpersónu Jóhanns, Galdra-Lofti. Doktorsefnið greinir ofan í kjölinn samband Lofts við föður sinn, vin, biskupinn og ástkonurnar tvær, og hvernig þessi tilfinningasambönd tengjast þrá hans eftir þekkingu. Fyrir henni er Loftur eins konar Don Juan þekkingarinnar. Þessi þrá breytist í ástríðu sem ýtir honum fram af ystu nöf og hann dregur veiklaðar sálir með sér í fallinu.

Vörnin fór að mestu leyti fram á íslensku. Doktorsefnið sjálft talar íslensku og form varnarinnar miðaðist bæði við hérlendar hefðir og franskar. Andmælendur, auk leiðbeinenda, voru þeir dr. Camille Dumoulié, prófessor við Université Paris XIII - Nanterre og dr. Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor við Háskóla Íslands. Heiðursandmælandi var dr. Sveinn Einarsson leikhúsfræðingur.

Með ritgerðinni bætist enn við rit sem greina höfundarverk Jóhanns, ævisögu Helge Thorberg og rannsóknarverk Jóns Viðars Jónassonar, Kaktusblómið og nóttin. - pbb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.