Erlent

Fyrstu líkin fundin eftir Yemenia-slysið

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Ættingjar og vinir franskra farþega, sem voru um borð í vél Yemenia, koma í áfallamiðstöð á Charles de Gaulle-flugvellinum við París.
Ættingjar og vinir franskra farþega, sem voru um borð í vél Yemenia, koma í áfallamiðstöð á Charles de Gaulle-flugvellinum við París. MYND/Reuters

Fyrstu lík þeirra sem fórust með Airbus-þotu jemenska flugfélagsins Yemenia, þegar hún hrapaði í Indlandshaf í nótt, eru fundin.

Franskar herflugvélar og eitt franskt skip hófu þegar leit á því hafsvæði sem vélin fórst á en af rúmlega 150 manns um borð voru 66 franskir farþegar. Frakkar hafa mátt þola mikla blóðtöku í flugslysum í þessum mánuði þar sem Airbus-þota á vegum franska flugfélagsins Air France hrapaði í Atlantshaf 1. júní með 228 manns um borð.

Enn er óljóst hvað olli því að vél Yemenia hrapaði í nótt en hún var á leið frá Sanaa, höfuðborg Jemen, til borgarinnar Moroni á Comoro-eyjum sem eru í Indlandshafi undan austurströnd Afríku en flestir farþeganna voru frá eyjunum. Að sögn Mohammad al-Sumairi, talsmanns Yemenia, var stormasamt á flugleið vélarinnar en hún átti ekki langt eftir á áfangastað þegar hún hvarf af ratsjá.

Að sögn flugumferðarstjóra í Moroni hafði flugstjóri vélarinnar tilkynnt að hann hefði hafið aðflug þegar samband rofnaði við vélina. Læknar hafa verið kallaðir út og beðnir að vera til taks á aðalsjúkrahúsi Moroni en leitar- og björgunaraðgerðir eru á frumstigi og allt óljóst um afdrif farþega og áhafnar vélarinnar.

Samkvæmt tölfræði á síðunni Aviationexplorer hafa rúmlega 20 Airbus-vélar farist síðan árið 1976 en þó ber að geta þess að í þremur tilvikum var um flugrán að ræða og flugslys bein eða óbein afleiðing þeirra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×