Innlent

Fékk blóðeitrun eftir leik á lóð borgarinnar

á svæðinu Þegar Fréttablaðið bar að garði voru börn að leik á svæðinu. Timbur og járn skapa mikla hættu fyrir börnin, auk þess sem naglar og gler leynast í grasinu. 
fréttablaðið/valli
á svæðinu Þegar Fréttablaðið bar að garði voru börn að leik á svæðinu. Timbur og járn skapa mikla hættu fyrir börnin, auk þess sem naglar og gler leynast í grasinu. fréttablaðið/valli

Mikil slysahætta hefur myndast á stórri lóð í Norðlingaholti. Miklu byggingarusli hefur verið komið fyrir á lóðinni sem er í eigu Reykjavíkur­borgar. Þá stendur hálfkláruð blokk með stillönsum á svæðinu. Nokkur börn í hverfinu hafa slasast á svæðinu, meðal annars lá ungur drengur á spítala í nokkra daga með blóð­eitrun eftir að hafa stigið þar á nagla.

„Þetta eru alls konar timburafgangar, járn og rör og fleira,“ segir Katrín Garðarsdóttir, sem er íbúi í Kambavaði, sem er ein þeirra gatna sem umlykja svæðið. Hinar göturnar eru Hestavað og Helluvað. Katrín segir að ruslið sé í eigu byggingafyrirtækis sem var að byggja tvær blokkir í hverfinu, en fór svo á hausinn. Önnur þeirra er nánast fullkláruð og í henni er búið. Hin er hálfkláruð og ekki girt af.

„Þar eru stillansar í kring og svæðið er mjög hættulegt börnum.“ Blokkin var girt af á meðan unnið var í henni en síðan þá hefur girðingin verið fjarlægð. Börn geta því klifrað upp á fjórðu hæð.

Katrín segir að fyrir utan slysin hafi mörg börn rifið og eyðilagt föt sín á nöglum og járnum. Það sé þó lítið mál miðað við hættuna sem þarna er.

„Börn eru bara þannig að þau fara í svona hættur, og þó að maður sé auðvitað á vaktinni þá getur maður ekki passað öll börnin í hverfinu.“ Um fjörutíu börn búa í húsunum í kringum svæðið. Íbúar segjast óttast að alvarlegri slys verði á svæðinu fljótlega ef ekkert verði að gert.

Margir íbúar á svæðinu segjast hafa hringt ítrekað í Reykja­víkur­borg til þess að ýta á úrbætur. Hverfisfundur hafi einnig verið haldinn og borgin viti því vel af vandanum. Íbúarnir hafa jafnvel boðist til að hreinsa svæðið sjálfir, ef borgin kemur með vörubíl eða gám á svæðið og fjarlægir það síðan. Fálega hefur verið tekið í það, að sögn þeirra, og lítið hefur verið um svör.

„Við höfum fengið þau svör að það þurfi að ná í viðkomandi eiganda,“ segir Katrín, en erfitt hefur reynst að ná í eigendurna. „Við viljum ekki að borgin komi og girði af svæðið, við viljum ruslið í burtu. Þetta er skemmtilegt og fallegt svæði, en ekki við þessar aðstæður.“

thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×