Lífið

Krían gerir Bolvíkinga rauðhærða

kríuplága í bolungarvík Íbúum Bolungarvíkur, útivistarfólki og golfurum, er vart vært vegna grimmrar kríu sem herjar á bæjarbúa.
kríuplága í bolungarvík Íbúum Bolungarvíkur, útivistarfólki og golfurum, er vart vært vegna grimmrar kríu sem herjar á bæjarbúa.

„Nei, hún er ekki að gera okkur gráhærð. Hún er að gera okkur rauðhærð. Hún heggur og þá rennur rautt,“ segir Halla Signý Kristjánsdóttir fjármálastjóri Bolungarvíkurkaupstaðar.

Sérstætt vandamál er komið upp í Bolungarvík en svo mjög hefur kríuvarpi vaxið ásmegin við bæinn að stofnað hefur verið til sérstakra undirskriftalista þar sem farið er fram á að lausn finnist á vandamálinu.

Samkvæmt upplýsingum frá Samkaup Úrval hafa nú þegar skráð sig á lista sem þar liggur frammi hátt í fjörutíu manns.

„Þeir eru nokkrir sem hafa orðið fyrir árás kríunnar. Hún er hérna á sandinum, við golfvöllinn, og það er pirringur út af þessu. Það varð slys, maður á mótorhjóli fékk kríu framan í sig. En þetta er friðaður fugl og lítið sem við getum gert þó þetta mál hafi komið inn á borð til okkar,“ segir Halla Signý – en bæjaryfirvöld hafa leitað til Náttúrustofu Vestfjarða og spurt hvort finna megi á þessu vandamáli ásættanlega lausn.

Halla Signý dregur ekki úr því að krían sé sérlega árásargjörn um þessar mundir – kolvitlaus nú þegar ungarnir eru að koma. Þarna er æðarvarp og krían sækir í það. Og skilyrði fyrir kríu virðast sérlega hagstæð því kríubyggðin hefur blásið út.

„En við höfum ekkert á móti kríunni. Og bjóðum hana velkomna eins og aðra í Bolungarvík. En það væri gott ef hægt væri að finna lausn á á þessum sambúðarvanda en manni og kríu virðist ekki ætlað að vera nágrannar svo vel sé.“- jbg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.