Innlent

Einar K: Verið að beita sparisjóðina fantabrögðum

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Mynd/EOL
„Það er verið að beita sparisjóðina fantabrögðum," segir Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, inntur eftir viðbrögðum við lögum um fjármálafyrirtæki sem samþykkt voru fyrir helgi.

Nokkur styr hefur staðið um lögin, ekki síst um níundu grein þeirra sem heimilar lækkun stofnfjár sparisjóða til jöfnunar taps þeirra. Í neyðarlögum er það skilyrði sett fyrir fjárframlagi ríkissjóðs til sjóðanna að varasjóðir þeirra séu ekki neikvæðir, þ.e. að eigið fé þeirra sé sé ekki minna en sem nemur bókfærðu virði stofnfjárins. Því var gripið til þessarar lagasetningar nú.

Einar segist hafa miklar áhyggjur af afleiðingum þessa. Hann segir niðurfærslu stofnfjár vera mikið áfall fyrir bæði fjölskyldur á landsbyggðinni svo og sveitarfélög sem kunna að vera stofnfjáreigendur.

Einar lagði ásamt fleirum í þinginu til að sett yrði gólf á niðurfærsluna þannig að gengi bréfa í sparisjóðunum færu aldrei niður fyrir einn, en það var ekki gert.

Aðspurður hvort það hefði skipt máli, þar sem margir keyptu bréfin á margföldu gengi, segir Einar:

„Það hefði ekki leyst allra manna vanda, en það hefði verið í samræmi við hugmyndafræðina á bak við sparisjóðina."

Hann segir rangt að leggja stofnfé sparisjóða og hlutafé banka að jöfnu, líkt og gert hefur verið.

Einar vill ekki heldur meina að það sé frjálst val sparisjóðanna að færa niður stofnféð, en samkvæmt lögunum þarf samþykki fundar stofnfjáreigenda hvers sjóðs til að lækka það.

„Þegar það er forsenda þess að fá opinbert fé þá eiga sparisjóðirnir engan annan kost en að samþykkja þá skilmála sem þeim eru réttir."




Tengdar fréttir

Eygló Harðar: Stofnfjáreigendur stefna í gjaldþrot

Í nýju frumvarpi viðskiptaráðherra um fjármálafyrirtæki er gert ráð fyrir því að heimilt verði að lækka stofnfé sparisjóða til jöfnunar taps sem ekki verður jafnað á annan hátt.

Gylfi: Ekki réttlætanlegt að bjarga bara stofnfjáreigendum

„Ef ríkið keypti stofnféð fullu verði væri ríkið að taka á sig tap sparisjóðanna á umliðnum árum," segir Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, um lagafrumvarp sitt um sparisjóðina. Í frumvarpinu er lögð til heimild til að færa niður stofnfé sjóðanna svo þeir geti þegið stofnfjárframlag frá ríkinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×