Innlent

Seðlabankinn svarar ekki fyrir „einkaflipp“ yfirlögfræðingsins

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands.

Ritstjóri Seðlabanka Íslands, Stefán Jóhann Stefánsson, hefur ekki viljað svara vegna álits yfirlögfræðings seðlabankans, sem var kynnt fyrir utanríkismálanefnd og fjárlaganefnd í gær.

Í ljós kom að álitið var alls ekki unnið fyrir Seðlabanka Íslands líkt og nefndarmenn töldu í upphafi heldur var það skoðun yfirlögfræðingsins, sem heitir Sigríður Logadóttir.

Þetta kom fram hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins í kvöld auk þess að notast verður við skoðun Sigríðar í áliti Seðlabanka Íslands sem mun verða kynnt á morgun.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna og formaður fjárlaganefndar, sagði á Morgunvaktinni á RÚV í morgun að svo virtist sem um einkaflipp lögfræðingsins væri að ræða. Þingmenn telja sig hafa veirð blekkta eða afvegaleidda þegar Sigríður kynnti álitið sem þeir töldu vera á ábyrgð Seðlabankans.

Þá lét Árni þau ummæli falla að svo virtist sem lögfræðingarnir teldu sig enn að störfum fyrir Davíð Oddsson, fyrrum seðlabankastjóra.

Þessi ummæli ollu mikilli úlfúð á þingi þar sem Ólöf Nordal, þingkona Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi Árna harkalega auk Ragnheiðar Elínar Sigurðardóttur þingkonu Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi. Hún heimtaði ennfremur afsökunarbeiðni af hálfu Árna Þórs og spurði hvað þingmaðurinn hygðist gera varðandi allt það uppnám sem fjarvera Davíðs virtist valda.

Henni þótti svo nóg um og sagði: „Á bara að bomba [Seðla]bankann og byrja svo upp á nýtt?"

Engin skýring hefur fengist á því hversvegna Sigríður kynnti álitið sem hefur verið eignað henni persónulega. Sjálf sendi hún Árna Þór skilaboð í gærkvöldi um að álitið endurspeglaði ekki skoðun Seðlabanka Íslands en í Fréttum RÚV í gær var það einnig kynnt með þeim hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×