Lífið

Fréttahaukur eltir kærastann til Düsseldorf

Fréttamaðurinn geðþekki hverfur af sjónvarpsskjám landsmanna um miðjan ágúst og flytur til Þýskalands.
Fréttamaðurinn geðþekki hverfur af sjónvarpsskjám landsmanna um miðjan ágúst og flytur til Þýskalands.

„Ég ætla að leita mér að vinnu og njóta lífsins í Evrópu í núll prósent verðbólgu og evru,“ segir fréttamaðurinn geðþekki Guðfinnur Sigurvinsson hjá Ríkissjónvarpinu.

Hann ætlar að flytja af landi brott um miðjan ágúst og freista gæfunnar í Þýskalandi. Símoni Ormarssyni kærasta hans var boðin vinna á hárgreiðslustofu Vidal Sassoon í borginni Düsseldorf og ákváðu þeir að taka slaginn. „Ég geri ráð fyrir því að þetta verði til einhverra ára en maður verður að sjá til hvernig þetta gengur,“ segir Guðfinnur.

Honum var sagt upp hjá Ríkissjónvarpinu síðastliðinn vetur og er um þessar mundir í sumarafleysingum. Að þeim loknum stígur hann upp í næstu flugvél og leitar á vit nýrra ævintýra. Kærasti hans er öllum hnútum kunnugur í Þýskalandi því hann starfaði hjá Vidal Sassoon í München í fimm ár áður en hann flutti heim til Íslands um aldamótin.

„Svo sendi kunningi hans honum póst á Facebook í vetur og bauð honum þetta. Við tókum því nú bara mátulega alvarlega og höfðum bara gaman af þessari hugmynd.

Símon starfaði áður sem flugþjónn hjá Icelandair en missti vinnuna síðasta sumar og svo ég í kjölfarið þannig að þá varð þetta úr,“ segir Guðfinnur, sem er mjög spenntur fyrir þessari nýju áskorun. „Núna snýst lífið um lífsgildi en ekki að þenja sig endalaust og vera í þessu lífsgæðakapphlaupi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.