Lífið

Q4U nýtur vinsælda í Berlín

q4u Söngkonan Ellý ásamt félögum sínum í Q4U á tónleikum. Sveitin hefur eignast aðdáendahóp í Berlín.
q4u Söngkonan Ellý ásamt félögum sínum í Q4U á tónleikum. Sveitin hefur eignast aðdáendahóp í Berlín.

„Það er komið eitthvað Q4U-költ í Berlín og það veit enginn út af hverju," segir Gunnþór Sigurðsson, bassaleikari pönksveitarinnar Q4U.

Nýlega kom hingað til lands Þjóðverji sem keypti upp lagerinn af síðustu plötu Q4U, Q2, sem innihélt um 150 eintök. Síðan þá hefur hann pantað þúsund eintök til viðbótar sem hann vill selja í Berlín.

„Ef við ættum að reyna að sinna þessu þyrftum við að búa til fleiri diska," segir Gunnþór, sem hefur ákveðnar grunsemdir um vinsældirnar í Þýskalandi. „Þetta er eitthvað út af þessari tengingu sem Q4U hefur við „goth" þegar það er að byrja. Mér finnst þetta samt skrítið því á disknum eru lög sem eru 40 sekúndur. Það er ekki mikið „goth" í því. Mottóið okkar er að ef þú getur ekki sagt það sem þú átt að segja á þremur mínútum áttu bara að vinna í bókabúð."

Gunnþór vill hvorki játa né neita því að tónleikar í Berlín séu í bígerð til að fylgja vinsældum sveitarinnar í Þýskalandi eftir. „Við ætlum að spila eitthvað heima og jafnvel fljótlega en hvar og klukkan hvað verður ekki sagt. Þetta er meira til gamans gert. Bandið er að æfa sig og það er allt í hinu mesta leyndói. Við mætum helst í dulargervi því við erum orðin svo fræg í Berlín," segir hann og hlær. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.