Innlent

Enn einn gróðureldurinn

Slökkviliði Grindavíkur barst tilkynning um gróðurelda í mosa, austan Kleifarvatns, um sjöleytið í kvöld. Það kraumar í mosa á svæðinu sem er töluvert utan alfaraleiðar og er slökkvistarf því afar erfitt. Björgunarsveitin Þorbjörn aðstoðar á vettvangi.

Gróðureldar hafa verið í Esjunni í dag og við Helgafell, nálægt Hafnarfirði, í gær eins og sjá má hér neðar.

Eldurinn brennur í þykkum mosa í hrauninu en ekki er mögulegt að komast þangað á bílum. Ekki er hægt að nota hefðbundin slökkvitæki á vettvangi.

„Við komum engum tækjum á þetta svæði, menn hafa bara hendur og skóflur til að klóra sig áfram við þessar aðstæður," segir Ásmundur Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík.

„Það er logn á svæðinu sem gerir slökkvistarfið bærilegt. Þetta er mjög erfitt en við erum búnir að grafa hring í kringum logandi mosann til að hefta útbreiðslu hans," segir Ásmundur.

Hann segir málið vera alvarlegt þar sem það taki gróðurinn um 50-100 ár að komast aftur í samt horf. Ekki er um að ræða stórt svæði og býst Ásmundur við að slökkvistarfi muni ljúka fyrri part nætur.




Tengdar fréttir

Ráðið niðurlögum elds í nágrenni Hafnarfjarðar

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins barðist við töluverða gróðurelda í mosa og lággróðri, í hrauni í nágrenni Hafnarfjarðar seinni part dags og fram á kvöld. Rétt fyrir ellefu tókst endanlega að slökkva eldana en þyrla Landhelgisgæslunnar tók virkan þátt í slökkvistarfinu.

Eldur í Esjunni

Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins barst tilkynning um gróðureld í Esjunni um klukkan hálf átta í kvöld. Um var að ræða gróðureld í lágggróðri og mosa. Eldurinn var nokkuð ofarlega í fjallinu og á töluverðu svæði, slökkvistarfi er nú lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×