Innlent

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins berst við gróðurelda

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar að störfum á svæðinu.
Þyrla Landhelgisgæslunnar að störfum á svæðinu.
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur barist við töluverða gróðurelda sem voru í mosa og lággróðri, í hrauni á milli Helgafells og Valahnúka í nágrenni Hafnarfjarðar. Slökkviliðið var kallað út vegna eldanna um miðbik dagsins.

Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur tekið virkan þátt í slökkvistarfinu og hefur hún nú farið tuttugu ferðir með vatn á svæðið. Í hverri ferð fer þyrlan með um tvö tonn af vatni.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins segir að slökkvistarfið gangi hægt og rólega en miði þó vel. Býst slökkviliðið við því að eldurinn verði algjörlega slokknaður fyrri part kvölds.

Engin slys eru á fólki og engin hætta er á ferð. Þó er töluverð skemmd á gróðri en hversu mikil á eftir að koma í ljós.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×