Innlent

Össur vill að Bjarni hugsi

Hótel Valhöll er nú rústir einar eftir brunann í fyrradag. Húsið fuðraði upp á örskömmum tíma og mildi þykir að ekki urðu slys á fólki. Hótelrekstur hefur verið í Valhöll frá árinu 1898 en það var flutt á núverandi stað skömmu fyrir Alþingishátíðina árið 1930.

Árið 2005 lét Halldór Ásgrímsson þáverandi forsætisráðherra gera úttekt á húsinu og óskaði eftir tillögum um framtíð hótelsins og hússins á Þingvöllum. Í skýrslu að þeirri úttekt lokinni var sagt að ástand hússins væri lélegt og nokkrar leiðir skoðaðar, m.a. að byggja nýtt hótel á öðrum stað innan þjóðgarðsins. Megin tillagan var þó að húsið yrði allt eða að hluta til rifið og nýtt hús byggt á grunni þess.

Bjarni Harðarson fyrrverandi þingmaður sat um tíma í Þingvallanefnd ásamt Össuri Skarphéðinssyni og voru þeir ekki sammála um framtíð hússins

Bjarni hnýtir í Össur og segir á bloggsíðu sinni að á föstudag hafi tvennt gerst sem ráðherrann hafi lengi dreymt að yrði að veruleika Valhöll á Þingvöllum hafi brunnið til grunna og Alþingi Íslendinga tekið til umfjöllunar tillögu sem miði að því að leggja af sjálfstætt þjóðríki á Íslandi.

„Mér fannst það sorglegt hvernig Bjarni tók til orða og halda það fram að það hlakki í mér yfir þessu. Mér finnst auðvitað mjög dapurlegt hvernig þetta fór. Það er Guðs þakkarvert að það var ekki slys á mönnum. Við Bjarna segi ég að hann ætti reyna að hugsa áður áður en hann skrifar," segir ráðherrann.

Alþingi skipar nýja Þingvallanefnd í komandi viku og hefur forsætisráðherra sagt nefndinni verði falið að koma með tillögur um framtíð Valhallar. En fráfarandi nefnd hefur lagt til að á þessum stað rísi aðstaða til að halda minni ráðstefnur bæði á vegum ríkis, Alþingis og einkaaðila.

„Sjálfur er ég þeirra skoðunar úr því sem komið er að þá eigi ekki að byggja upp hótel á þessum stað," segir Össur.

Vegna stöðunnar í þjóðfélaginu verði einkaaðilum falið þetta verkefni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×