Innlent

Höfum fjórum sinnum leitað til IMF

Fjármálráðherra segir það ekki koma í ljós fyrr en í næstu viku hvort sótt verður um aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag en þar segir Árni Mathiesen, fjármálaráðherra, jafnframt að umræður við fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem fóru fram í Washington, séu ekki komnar á það stig að verið sé að ræða um skilyrði sjóðsins fyrir stuðningi. Nokkrir sérfræðingar sjóðsins eru staddir hér á landi til að afla upplýsinga um stöðu mála og greina vandann sem við blasir. Hugsanleg aðstoð yrði meðal annars byggð á skýrslu sem þeir skila af sér.

Ísland hefur fjórum sinnum hlotið fjárhagsaðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Fyrsta lánið var veitt árið 1960 í tengslum við efnahagsumbætur Viðreisnarstjórnar, en eftir það fékk Ísland þrisvar sinnum lán hjá sjóðnum vegna greiðsluhallaerfiðleika.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem fréttastofan hefur aflað sér virðist aðstoðin sem er í kortunum nú umfangsmeiri en sú sem Ísland hefur fengið áður.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×