Innlent

Nærri átta prósentum meiri afli í mars í ár en í fyrra

Heildarafli íslenskra skipa í mars var nærri átta prósentum meiri en í sama mánuði í fyrra. Hann dróst hins vegar saman um nærri ellefu prósent á fyrsta ársfjórðungi samanborið við fyrsta ársfjórðung í fyrra.

Fram kemur á vef Hagstofunnar að aflinn í nýliðnum mars hafi numið nærri 170 þúsund tonnum en hann var rúmlega 162 þúsund tonn í fyrra. Botnfiskafli jókst um tæplega eitt þúsund tonn frá mars 2007 og nam tæpum 54.200 tonnum. Þorskafli dróst saman um 4.200 tonn, karfaafli jókst um 2.700 tonn og ýsuaflinn um 1.800 tonn.

Þá nam afli uppsjávartegunda rúmum 112 þúsund tonnum og jókst um rúm 5.300 tonn frá mars 2007. Þá jókst loðnuaflinn um 18.600 tonn í mars miðað við sama mánuð í fyrra og var alls tæplega 96 þúsund tonn. Afli kolmunna var rúm 16.800 tonn og dróst saman um 13.200 tonn frá sama tíma árið 2007.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×