Erlent

Fengu fjölmargar ábendingar um morðingja Höglund í fyrra

Lögregluyfirvöldum í Svíþjóð bárust fjölmargar ábendingar um morðingja hinnar 10 ára gömlu Englu Juncosu Höglund í fyrra, en fylgdi þeim ekki eftir. Tilviljun réð því að morðinginn framdi verknaðinn.

Engla Juncosa Höglund hvarf sporlaust er hún var á leið heim af fótboltaæfingu í síðustu viku. Umfangsmikil leit hófst í kjölfarið. Lögregla komst á sporið þegar áhugaljósmyndari náði mynd af stúlkunni fyrir tilviljun og tæpri mínútu síðar náðist mynd af rauðri SAAB-bifreið á sama vegi, sem síðar reyndist í eigu morðingjans. Lögregla handtók manninn sem neitaði sök í fyrstu en hann viðurkenndi síðar verknaðinn og vísaði lögreglu á lík stúlkunnar. Hann viðurkenndi jafnframt að hafa myrt 31 árs gamla konu, Pernillu Hellgren, í Falun árið 2000.

Morðinginn heitir Anders Eklund og er 42 ára vörubílstjóri. Aftonbladet hefur eftir félaga Eklunds að morðið á Englu hafi verið óundirbúið og að tilviljun hafi ráðið því að hún hafi orðið fyrir valinu. Hann segir morðið ekki framið í kynferðislegum tilgangi. Hann mun hafa myrt stúlkuna sama dag og hann rændi henni. Eftir morðið kom hann við á veitingastað í nágrenninu og gæddi sér á pítsu.

Í nóvember í fyrra sýndi sænsk sjónvarpsstöð fréttaþátt um morðið á Pernillu Hellgren. Eftir þáttinn bárust lögreglunni yfir 30 vísbendingar, þar af nokkrar sem beindust að Eklund. Lögreglan hafði því fimm mánuði til að yfirheyra hann vegna morðsins en fylgdi ábendingunum ekki eftir. Hefur lögreglan verið harðlega gagnrýnd vegna málsins og hefur sérstök nefnd verið skipuð til að rannsaka vinnubrögð lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×