Erlent

Afturendi á atkvæðaveiðum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Ítölsk nunna skilar atkvæði sínu. Kaus hún D'Abbracio?
Ítölsk nunna skilar atkvæði sínu. Kaus hún D'Abbracio? MYND/AP

Ítalska klámstjarnan Milly D´Abbraccio fer ótroðnar slóðir í baráttu sinni um sæti í borgarráði Rómaborgar og flaggar nú öðrum enda en almennt blasir við kjósendum af kosningaspjöldum - nefnilega afturenda sínum. „Fólk hefur engan áhuga á andlitum frambjóðendanna lengur," segir D´Abbraccio, „ég er skutur Jafnaðarmannaflokksins."

Meðal efstu mála á stefnuskrá D´Abbracio er að opna rauða hverfið „Love City" í borginni eilífu og bjóða þar upp á nektarklúbba, kynræn diskótek og kynlífsverslanir. Hverfið yrði einungis steinsnar frá Vatíkaninu, helgasta véi kaþólsku kirkjunnar.

„Þetta ætti bara að vera sætt og snyrtilegt hverfi, ekkert vændi," segir D´Abbracio og telur sig höfða til stórs hóps kjósenda með þessu stefnumáli sínu sem vart hlyti brautargengi í Ráðhúsi Reykjavíkurborgar.

Ítalir ganga að kjörborðinu í gær og í dag og kjósa hvort tveggja til þings og sveitarstjórna. Flaggskip Jafnaðarmannaflokksins í Róm, sem á að baki stórleik í kvikmyndum á borð við „The Kiss of the Cobra" og „Imperial Nymphomaniac", óttast ekki reynsluleysið í hörðum heimi stjórnmálanna og bendir á að hún hafi nú leikið þingkonu í stórvirkinu „L´Onorevole" með glæsibrag.

Væntanlega verður ljóst í fyrramálið hvort kjósendur veiti D'Abbracio og bossa hennar brautargengi. Hvernig skyldi formaður Norðurbandalagsins, Umberto Bossi, auglýsa sitt framboð?

Reuters greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×