Enski boltinn

West Ham getur ekki áfrýjað til CAS

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlos Tevez í leik með West Ham.
Carlos Tevez í leik með West Ham. Nordic Photos / Getty Images

Íslendingafélagið West Ham hefur orðið fyrir miklu áfalli þar sem í ljós er komið að félagið getur ekki áfrýjað niðurstöðu gerðardóms fyrr í vikunni til Áfrýjunardómstóls íþróttamála (CAS) í Lousanne í Frakklandi.

Gerðardómurinn úrskurðaði Sheffield United í hag sem sótti mál sitt gegn West Ham fyrir að nota ólöglegan leikmann á leiktíðinni 2006-7. Sá var Carlos Tevez en West Ham bjargaði sér frá falli um vorið, meðal annarra á kostnað Sheffield United.

Matthieu Reeb, einn forráðamanna CAS, sagði í samtali við fréttastofu BBC, að dómstóllinn gæti ekki tekið málið að sér.

„Við myndum þurfa samþykki Sheffield United auk þess sem að reglur enska knattspyrnusambandsins þyrftu að heimila slíka áfrýjun."

Afar ólíklegt verður að teljast að Sheffield United samþykki þessa aðgerð auk þess sem að reglur sambandsins heimila ekki áfrýjun.

Sheffield United hefur farið fram á meira en 5,2 milljarða í skaðabætur frá West Ham en viðurlögin verða ákveðin í sérstökum gerðardómi snemma á næsta ári.

Þar að auki var sagt frá því að tíu leikmenn Sheffield United gætu lögsótt West Ham af sömu ástæðum og félagið gerði það. Leikmenn urðu af bónusgreiðslu er liðið féll auk þess sem þeir þurftu margir að sætta sig við launalækkun á næsta keppnistímabili.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×