Innlent

11 þúsund skrifuðu undir í kjölfar stillimyndar

Sigríður Margrét Oddsdóttir
Sigríður Margrét Oddsdóttir

Stillimyndin á SkjáEinum í gærkvöld hafði þau áhrif að um 11 þúsund manns skrifuðu undir áskorun til menntamálaráðherra og ríkisstjórnar Íslands um að leiðrétta ójafnt samkeppnisumhverfi einkarekinna sjónvarpsstöðva. Samtals höfðu um 51.000 manns skrifað undir áskorunina um hádegisbil í dag.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skjá einum. Þar segir einnig:

SkjárEinn bauð áhorfendum sínum ekki upp á hefðbundna dagskrá í gær heldur sýndi stöðin stillimynd þar sem áhorfendur voru hvattir til að skrifa undir fyrrnefnda áskorun.

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Skjásins ehf., er afar ánægð með viðbrögðin.

„Þátttakan endurspeglar skýra kröfu íslenskra sjónvarpsáhorfenda um að fá að vita hvað sé framundan í málefnum einkarekinna sjónvarpsstöðva hér á landi. Þær geta ekki þrifist í ójafnri samkeppni við RÚV í efniskaupum og á auglýsingamarkaði. Það er á ábyrgð okkar að koma fólki í skilning um hvað bíður þess ef ekki verða teknar réttar ákvarðanir í þessum efnum og það var engin tilviljun að við völdum fimmtudag til að fylgja þessum málstað okkar eftir."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×