Íslenski boltinn

Guðjón á skólabekk með Gareth Southgate

Elvar Geir Magnússon skrifar
Guðjón Þórðarson verður þriðji íslenski þjálfarinn til að öðlast Pro Licence þjálfaragráðuna.
Guðjón Þórðarson verður þriðji íslenski þjálfarinn til að öðlast Pro Licence þjálfaragráðuna.

Guðjón Þórðarson, þjálfari ÍA, er sestur á skólabekk með nokkrum kunnum köppum. Hann situr námskeið hjá enska knattspyrnusambandinu og mun útskrifast með Pro Licence þjálfaragráðu á næsta ári.

Pro Licence gráðan er hæsta þjálfaramenntun sem í boði er innan Evrópu og gefur réttindi til að stjórna liðum í öllum deildum innan Evrópu.

„Ég fór út í viku um daginn og það var virkilega skemmtilegt. Þetta er þroskandi ferli. Maður er alltaf að læra eitthvað nýtt svo fremi sem maður sé með opinn huga. Þannig er bara lífið," sagði Guðjón í samtali við Vísi.

Aðeins tveir íslenskir þjálfarar eru með Pro Licence gráðuna en það eru Teitur Þórðarson og Sigurður Ragnar Eyjólfsson. Sigurður útskrifaðist fyrir stuttu en meðal hans bekkjarfélaga var Roy Keane, þjálfari Sunderland.

Guðjón er með nokkrum kunnum köppum á námskeiðinu, þar á meðal er Mike Phelan sem er í þjálfaraliði Manchester United og svo Gareth Southgate, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Middlesbrough.

„Gareth er algjör öðlingur af manni," segir Guðjón um Gareth. Guðjón mun aftur fara út til Englands næsta haust en þangað til verður hann að vinna ýmis verkefni sem eru hluti af námskeiðinu.

Þeir sem sitja námskeiðið með Guðjóni:

Neil Bailey, Wayne Allison, David Hockaday, Sean McAuley, Peter Shirtliff, Jamie Robinson, Adam Sadler, Gareth Southgate, Colin Cooper, Kenny Swain, Lee Richardson, Tony Loughlan, Jon Rudkin, Malcolm Crosby, Graeme Jones, Mike Phelan, Dan Ashworth.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×