Innlent

Samþykkt að gera ráð fyrir útisundlaug við Sundhöllina

Skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum í gær að gera ráð fyrir útisundlaug á lóð sunnan við Sundhöllina í Reykjavík.

Júlíus Vífill Ingvarsson, formaður skipulagsráðs, segir að skipulagsstjóra hafi með tillögunni verið falið að afmarka lóð fyrir slíka sundlaug. Hann segir ýmsar hugmyndir að útliti slíkrar sundlaugar hafa verið viðraðar en eiginleg hönnun sé ekki hafin. Mikilvægt sé að byggingin verði vel úr garði gerð enda sé Sundhöllin flott og sögufræg bygging og ný sundlaug verði að kallast á við hana.

Þá segir Júlíus að hugmyndir séu einnig uppi um að hægt verði að koma fyrir líkamsræktarsölum í tengslum við hina nýju sundlaug. „Þetta er spennandi mál sem samkvæmt ákvörðun ráðsins kemur til framkvæmda, þó ekki alveg á næstu misserum," segir Júlíus Vífill og vísar þar til breytts efnahagsástands. „Ég tel að þetta verði mikil bót fyrir hverfið og sömuleiðis fyrir Sundhöllina," segir hann enn fremur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×