Innlent

Illugi segir pólitíska framtíð sína ekki vera 11 milljarða virði

Illugi Gunnarsson þingmaður.
Illugi Gunnarsson þingmaður.

Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi stjórnarmaður í peningamarkaðssjóðum Glitnis, segir að það hafi verið stjórnendur gamla Glitnis sem tóku þá ákvörðun að kaupa bréf Stoða út úr sjóðunum. Þessi ákvörðun hafi verið tekin áður en neyðarlögin tóku gildi. Hún hafi því ekki verið tekin af forsætisráðherra eða fjármálaráðherra. "Ég er ágætur maður en efast um það að nokkur maður, hvorki eigendur bankanna né ríkið, sé tilbúinn til þess að eyða 11 þúsund milljónum í mig," sagði Illugi í Íslandi í dag.

Illugi var þarna að svara fullyrðingum Sigurðar G. Guðjónssonar, fyrrverandi stjórnarmanns í Glitni, sem sagði í gær að ríkið hefði lagt peningamarkaðssjóðunum til ellefu milljarða króna eftir að þeim hafði verið lokað vegna þess að Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafi setið í stjórn sjóðanna.

Þá sagði Illugi að sú nefnd sem DV fullyrðir að sé að störfum og eigi að fjalla um nýjan stjórnarsáttmála ekki vera að fjalla um það heldur sé hópurinn að fara yfir aðgerðir vegna efnahagsvandans. Illugi neitar sögusögnum um yfirvofandi stjórnarslit og segir stjórnarsamstarfið vera með ágætum. Illugi sagði jafnframt að breytingar á stefnu Sjálfstæðisflokksins varðandi ESB verði ekki teknar nema á landsfundi flokksins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×