Innlent

Tryggingastofnun segir fatlaða stúlku of þunga

Átta ára fatlaðri stúlku var synjað um þríhjól hjá Tryggingastofnun af því að hún var sögð of þung. Fáránleg mismunun, segja ættingjar.

Átta ára gömul stúlka sem býr hjá foreldrum sínum á Akureyri. Hún er þroskahömluð, tjáir sig lítið og á erfitt með hreyfingu og jafnvægi. Þess vegna sóttu foreldrar hennar um þríhjól fyrir hana svo hún gæti komist um, en slíkt hjól kostar 300-400.000 þúsund krónur.

Foreldrunum til furðu sagði Tryggingastofnun hins vegar nei, ekki einu sinni heldur þrisvar - eða jafnoft og hjónin sóttu um hjálpartækið. Skýringarnar þykja orka tvímælis. Stúlkan þykir of þung.

Hvergi segir neitt um offitu í þeim gögnum frá Tryggingastofnun sem fréttastofa hefur skoðað heldur féllu þau ummæli í síma. Tryggingastofnun gefur hins vegar í skyn í einu bréfanna að fatlaða stúlkan sé í of góðu formi til að þurfa þríhjól.

Búið er að hrinda af stað fjársöfnun fyrir stúlkuna þar sem vinir og velunnarar fjölskyldu hennar hafa fest kaup á nýju þríhjóli fyrir eigin pening.

Frá Tryggingastofnun fengust þau svör að stofnunin tjáði sig almennt ekki um einstök mál. Ekki sé þó útilokað að afgreiðsla þessa máls verði endurskoðuð.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×