Fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík gerði í dag húsleit á skrifstofu starfsmanns í fjármálaráðuneytinu sem bendlaður er við stórfellt smygl á amfetamíni og kókaíni til landsins
Maðurinn er ásamt þremur öðrum grunaður um að hafa á þátt í að smygla um 5 kílóum af amfetamíni og um 600 grömmum af kókaíni sem komu með hraðsendingu til landsins í nóvember síðast liðnum. Húsleit lögreglunnar er liður í rannsókn hennar á málinu en samkvæmt heimildum fréttastofu voru ýmis gögn gerð upptæk og önnur skoðuð. Þá framkvæmdi fíkniefnalögreglan fleiri húsleitir í dag og í gær en ekki hefur fengist uppgefið hvar. Mennirnir þrír sitja í gæsluvarðhaldi en auk starfsmanns ráðuneytisins er bróðir hans grunaður um aðild að málinu sem og starfsmaður hraðflutningafyrirtækisins UPS en sá starfaði á tollasvæði Keflavíkurflugvallar.
Þetta er í fyrsta sinn svo vitað sé sem lögregla gerir húsleit í ráðuneyti hér á landi í tengslum við fíkniefnamál. Rannsókn málsins hefur verið afar viðamikil og meðal annars teygt anga sína til Þýskalands. Lögreglan verst allra frétta af málinu en segir rannsókninni miða vel.
