Innlent

Gagnrýnir birtingu fjölmiðla á tölvupóstum Bjarna Harðarsonar

Varaþingmaður vinstri grænna telur að fjölmiðlar hafi brotið landslög með því að birta tölvupóst Bjarna Harðarsonar fyrrverandi þingmanns. Fjölmiðlafræðingur við Háskólann á Akureyri segir það rétta ákvörðun að birta póstinn.

Björn Valur Gíslason, varaþingmaður Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi, gagnrýnir fjölmiðla fyrir að hafa birt upplýsingarnar sem Bjarni Harðarson fyrrum þingmaður sendi þeim af slysni í fyrrakvöld og urðu til þess að hann sagði af sér þingmennsku. Í pistli á bloggsíðu segir Björn Valur; „Mér finnst hlutur fjölmiðla í þessu máli hinsvegar vekja upp ákveðnar spurningar um meðferð tölvupósts. Þarna finnst mér fjölmiðlar hafa brotið gegn almennum reglum um meðferð tölvupósts og jafnvel gegn landslögum um sama mál. Mega menn þá alltaf búast við því að verði þeim á þau mistök að senda óvart viðkvæman póst til fjölmiðla að hann verði birtur ef fjölmiðlum hentar svo?

Birgir Guðmundsson fjölmiðlafræðingur við Háskólann á Akureyri sagði um þetta í samtali við fréttastofu í dag að fjölmiðlar séu ekki undanþegnir landslögum, þeir hafi hins vegar þá sérstöðu að meðhöndla iðulega viðkvæmar upplýsingar og ákveða hvað skuli gera við þær, hvort almannaheill eða fréttagildi upplýsinganna kalli á birtingu. Honum sýnist sem svo hátti til um þetta mál. Það hefði verið fráleitt að halda upplýsingunum leyndum fyrir þjóðinni. Birgir vísar til Jónínumálsins svokallaða þar sem dómstólar úrskurðu að Fréttablaðinu hefði verið heimilt að birta fréttir byggðar á upplýsingum úr tölvupóstum Jónínu Benediktsdóttur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×