Innlent

Fundi lokið í viðskiptanefnd - Umræður hefjast innan skamms

Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, er formaður viðskiptanefndar Alþingis.
Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, er formaður viðskiptanefndar Alþingis.

Fundi viðskiptanefndar Alþingis lauk klukkan rúmlega hálf níu fyrr í kvöld og hafði nefndin þá tekið á móti rúmlega 20 gestum. Þar á meðal voru fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda, fjármálastofnanna, Fjármálaeftirlitisins og Íbúðalánasjóðs.

Fyrir Alþingi liggur fyrir frumvarp um aðgerð ríkisstjórnar vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.

,,Við fórum yfir málið og öllum gafst tækifæri á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri," segir Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar og formaður viðskiptanefndar Alþingis, og bætir við að allir hafi gert sér grein fyrir að um neyðarlög sé að ræða til að mæta þeim efnhagslegu þrengingum sem heimurinn gengur nú í gegnum.

,,Með lögunum á að tryggja að séreignasparnaður og innistæður fólks í innistæðu formi séu öruggar og að bankaþjónusta verði starfandi í landinu um ókomna framtíð. En höggið verður talvert en við megum heldur ekki gleyma því að innviðirnir eru traustir og langtímahorfur jákvæðar. Við munum komast út úr þessu," segir Ágúst Ólafur.

Ágúst Ólafur á von á því að frumvarpið verði að lögum síðar í kvöld. Umræða um frumvarpið hefst klukkan 21:40.

Samkvæmt Ágúst Ólafi hyggst Framsóknarflokkurinn styðja frumvarpið með fyrirvara en Vinstri grænir og Frjálslyndi flokkurinn skila séráliti.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×