Töluverð olía lak úr flutningaskipinu Medemborg þegar mistök urðu við að dæla olíu á skipið rétt fyrir hádegi. Skipið liggur í Sundahöfn og fór olían í sjóinn.
Fimmtán manna hópur frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins er á staðnum og að sögn Jóhanns Ásgeirssonar innivarðstjóra bíður þeirra margra klukkustunda vinna við að hefta útbreiðslu olíunnar í sjónum. „Við erum ásamt höfnunum með flotgirðingu sem við drögum út fyrir olíulekann og komum þar með í veg fyrir frekari útbreiðslu. Þá er náttúrulega eftir að ná olíunni upp úr sjónum og koma henni í þar til gerð ker til förgunar. Olíunni er dælt upp úr sjónum með dælubílum en hún flýtur ofan á. Svona lagað er margra klukkutíma vinna," útskýrir Jóhann.